Bjarni Marinósson
Bjarni er fæddur og uppalinn á Skáney, sonur þeirra Marinós Jakobssonar og Vilborgar Bjarnadóttur.
Bjarni byrjaði ungur að vinna við búskapinn. Hann fékk snemma áhuga á hestum og því sem þeim tengdist enda var alltaf mikill áhugi á ræktun og þjálfun á Skáney. Var Marinó faðir hans framarlega á því sviði á þeim tíma. Bjarni byrjaði fljótlega að fást við tamningar með öðrum búverkum bæði fyrir sig og aðra. Iðulega keypti hann fola sem aðrir höfðu gefist upp á að temja og tamdi þá og seldi síðan.
Bjarni starfaði á tamningarstöðinni á Hvítárbakka tvo vetur 1969 og 1972, en þar rak Hrossaræktarsamband Vesturlands tamningarstöð um árabil. Þar starfaði auk Bjarna, Reynir Aðalsteinsson tamningarmeistari ásamt fleirum. Þangað komu folarnir með mjólkurbílnum jafnvel óbandaðir úr ótömdu stóði. Þurftu þá oft báðar hendur að standa fram úr ermum til að hemja suma folana sem voru oft mjög sjálfstæðir. Einn vetur starfaði Bjarni við tamningar norður í Aðaldal í Þingeyjarsýslu.
Árin 1974-75 byggir Bjarni svo ásamt foreldrum sínum stórt fjós fyrir 40 kýr og ákveður að fjölga kúnum og búa með þær. Hann heldur áfram að þjálfa og temja milli mjalta og oft voru kvöldin drjúg til tamninga.
Árið 1980 flytur svo Birna að Skáney og þau taka við öllu búinu en Marinó og Vilborg hættu búskap og fluttu í Borgarnes. Áfram hélt Bjarni að temja og þjálfa og sýna öll sín hross sjálfur. Hann hefur verið mjög virkur við sýningar kynbótahrossa og var með hross á flestum Lands- og Fjórðungsmótum frá árinu 1965 til dagsins í dag. Á Fjórðungsmótinu á Kaldármelum 1988 var 1/3 af öllum sýndum kynbótahrossum frá Skáney.
Bjarni hefur einnig verið virkur í félgsmálum. Hann var í stjórn Vesturlandsdeildar Félags hrossabænda í mörg ár, hann var formaður Hrossaræktarsambands Vesturlands frá 1992 til 2009 eða í 17 ár. Hann hefur mikið starfð með og fyrir hestamannafélagið Faxa, verið í stjórnum Fjárræktarfélagsins, Búnaðarfélagsins og Veiðifélags Hvítár og Norðlingafljóts svo eitthvað sé nefnt.