Randi Holaker

Image
Image

Randi er fædd og uppalin í Noregi í bænum Lörenskog  sem er í útjaðri Ósló, dóttir þeirra Karls og Grethe Holaker.

Hún byrjaði snemma að sýna mikinn áhuga á hestum og flest öllum dýrum. Fyrst var staðið löngum stundum í röð til að fá að fara á bak og láta teyma undir sér. Aftur og aftur fór faðir hennar með henni aftast í röðina og fleiri ferðir á bak hestinum. 7 ára gömul fer hún svo á sitt fyrsta reiðnámskeið. Eftir það fór hún eins oft á námskeið og hún hafði tækifæri til. 17 ára gömul eignast Randi svo sinn fyrsta íslenska hest og var ekki aftur snúið eftir það. Fjótlega fékk hún svo mikinn áhuga að koma til Íslands til að kynnast hestinum á hans heimaslóðum. Foreldrar hennar hvöttu hana til að halda áfram og ljúka námi fyrst.

Randi fór í sérstakan íþróttamenntaskóla, hún hafði æft fótbolta og handbolta að kappi frá unga aldri og er fædd með skíði á fótunum eins og allir norðmenn. Hún útskrifast sem stúdent þaðan og fór svo í hjúkrunarfræði og lýkur henni og starfar sem hjúkrunarfræðingur í 3 ár.

Þá lætur Randi drauminn rætast og kemur til Íslands. Hún ætlaði fyrst að vera í hálft ár, fékk sér launalaust leyfi úr vinnunni til að ná sér í meiri reynslu, færni og þekkingu en fór svo ekki aftur til Noregs.

Randi kemur til Íslands í janúar 2005 og fer að vinna í Hallkelsstaðarhlíð á Snæfellsnesi og er þar fram á haust er hún ákveður að fara í Háskólann á Hólum og byrjar þar haustið 2005. Hún var svo hæst á lokaprófi vorið eftir. Randi starfaði svo aftur í Hallkelsstðarhlíð sumarið eftir og keppti m.a. á Landsmótinu á Vindheimamelum 2006.

Um haustið er það svo 2. árið á Hólum. Hún fer svo í verknám til Gísla og Mette á Þúfum í Skagafirði, útskrifast sem tamningamaður og þjálfari um vorið með mjög góðum árangri.

Sumarið 2007 starfar Randi við tamningar og þjálfun hjá þeim Antoni Páli og Ingu Maríu í Syðra-Holti við Dalvík. Haustið 2007 starfar svo Randi aftur á Þúfum við tamningar og þjálfun.

Veturinn 2008 fer Randi svo í reiðkennaradeildina á Hólum og útskrifast sem reiðkennari og þjálfari frá Háskólanum á Hólum vorið 2008 með glæsibrag og m.a. er hún hæst í reiðkennsluhlutanum eftir veturinn. Það sumar starfar hún svo aftur í Syðra-Holti.

Randi hefur keppt og sýnt á öllum Landsmótum síðan hún kom til Íslands ásamt fjölda annara móta á hverju ári með góðum árangri.

Randi fer reglulega út að kenna bæði til Noregs og Finnlands.

Haustið 2008 flytur Randi að Skáney og hefur stundað tamningar og reiðkennslu á Skáney síðan ásamt Hauki. Eiga þau saman dóturina Kristínu Eir fædda 2009.