Skáney er í Reykholtsdal í Borgarfirði, örstutt frá Reykholti þar sem sagan er í hverri þúfu. Með tilkomu Hvalfjarðarganganna er stutt til okkar úr Reykjavík, aðeins um 100km.
Skáney er eitt elsta hrossaræktarbú landsins, en ræktunin hefur verið stunduð markvisst í tæp 70 ár.
Ræktunina hóf Marinó Jakobsson árið 1944. Hrossin áttu að vera vel byggð, fríð og fjölhæf á gangi auk þess að vera auðtamin.
1958 fæðist honum rauðblesótt stóðhestefni sem hann kallar Blesa (598) frá Skáney. Blesi hlaut háan einstaklingsdóm og undan honum komu yfirleitt vel byggð, fríð og fjölhæf hross. Hægt er að rekja ættir flestra hrossanna á Skáney í dag til hans
Árið 1980 tóku Bjarni sonur Marinós og kona hans Birna Hauksdóttir við ræktuninni. Nú seinni árin hafa svo Haukur sonur þeirra og Randi Holaker tekið mjög virkan þátt í búinu og úrvinnslu hrossanna.
Hrossafjöldinn er í dag um 100 hross, þar af um 20 ræktunarhryssur. Hryssurnar eru yfileitt tamdar og sýndar áður en þær fara í folaldseignir. Tryppin byrjum við á temja á 4. vetur, þá sérstaklega hryssurnar. Þær eru yfirleitt sýndar ungar, 4 og 5 vetra.
Hrossin alast upp í fjölbreytilegu landslagi, í hlíðum Skáneyjarbungu (260m). Þar er gott fyrir ungviðið að hafa fjölbreytt landslag og gróður í uppvextinum.
Mörg hrossanna eru rauð með blesu eða stjörnu en einnig eru flestir aðrir litir ti í stóðinu, t.d. jörp, brún, leirljós, vindótt, móálótt, moldótt og skjótt.
Hrossin eru í Worldfeng þar sem hægt er að sjá nánari upplýsingar um þau t.d. kynbótamat og ættir. Einnig er mikið af upplýsingum um hrossin okkar og ættir þeirra hér á síðunni undir flipunum Ræktunarmerar og Stóðhestar.
Frá Skáney hafa komið mörg góð kynbóta- og keppnishross en síðast en ekki síst úrvals reiðhross.
Allt árið um kring höfum við hross við allra hæfi til sölu, á öllum stigum tamningarinnar.