Haukur Bjarnason

Image
Image

Haukur er fæddur og uppalinn á Skáney, sonur þeirra Bjarna og Birnu á Skáney.

Áhugi hans vaknaði snemma á hestum og öllu sem þeim viðkom. Ef það vantaði afþreyingu fyrir hann var honum réttur taumur á hesti og hann gat teymt hrossið tímunum saman um hlaðið. Fljótlega fór hann svo að langa á bak og stillti hann þá hestinum upp við næsta mögulega hlut og skreið á bak. Fyrsti túrinn fór nú þannig að strákur skreið á bak og setti hælanna í hryssuna og hún skokkaði af stað og skildi knapann eftir í moldarhaug bak við hús, en hann skreið bara aftur á bak og hélt áfram að æfa sig.

Haukur eignaðist sitt fyrsta hross í tannfé, það var rautt merfolald sem pabbi hans gaf honum og fékk nafnið Blaðka. Hún reyndist svo ekki sem skildi þegar farið var að temja hana og fóru feðgarnir þá í hestakaup og fékk hann 1. verðlauna hryssuna Rönd í staðin og eru flest öll hrossin hans Hauks útaf henni. Hún hefur reynst afar vel til framræktunar.

Á Fjórðungsmóti 1997 sýndi Haukur svo Rönd með afkvæmum og varð hann þá yngsti hrossaræktandinn sem það hefur gert.

Haukur þjálfaði hross með skólanum til 16 ára aldurs, en oft fannst honum nú skólinn slíta daginn full mikið í sundur. Eftir skólaslylduna var hann eingöngu við tamningar, þjálfun og önnur bústörf heima á Skáney.

Haukur hefur einnig haft mikinn áhuga á öllu rolluragi og finnst fátt eins gaman og fara á fjall og smala.

Haukur hefur stundað keppni og sýningar frá 7 ára aldri, oft með góðum árangri. Hann varð t.d. heimsmeistari unglinga í 5-gangi á Andvara frá Skáney þegar Feif Youth Cup var haldið á Íslandi 1998. Hann hefur keppt á mörgum Fjórðungs- og Landsmótum í gegnum árin.

Árið 2006 skellti Haukur sér í Háskólann á Hólum og fór í verknám í Syðra-Holt hjá þeim Antoni Páli og Ingu Maríu á öðru árinu. Hann útskrifaðist svo  sem þjálfari og reiðkennari vorið 2009, náði m.a. hæstu einkunn í reiðprófi það vorið með stóðhestinn sinn Sólon frá Skáney.

Eftir það hafa Haukur og Randi starfað og búið heima á Skáney og eiga saman dótturina Kristínu Eir sem er fædd 2009.